Náttúruleg loftræsing
Náttúruleg loftræsing er elsta gerð loftræsingar og er algeng í eldra íbúðarhúsnæði hér á landi.
Drifkraftur fyrir náttúrulega loftræsingu er helst tvennskonar vindþrýstingur og svokölluð skorsteinsáhrif. Skorsteinsáhrif eru áhrif þar sem heitt og rakt loft stígur upp, til dæmis í gegnum stokka sem liggja upp frá baðherbergjum. En almennt eru mestu loft skipti vegna vinds sem að dregur loft í gegnum opnanleg fög, aðrar opnanir eða óþéttleika í byggingarhjúp.
Helstu ókostir náttúrulegrar loftræsingar eru að hún er háð hitastigsmun og vindi. Til dæmis aukast skorsteinsáhrif á veturna þegar það er kalt úti og minnka þegar heitara er í veðri. Þannig geta loftskipti ýmist orðið lítil sem engin þegar hlýtt er úti og vindhraði lítill en heldur mikil þegar kalt er úti og hvasst. Mikil loftskipti yfir vetrartímann leiða til aukinnar kyndiþarfar.
Í náttúrulega loftræstum híbýlum getur reynst flókið að stýra hitastigi, kaldur dragsúgur myndast yfir vetrartímann og mögulega verður oft heitt inni á hlýjum dögum. Að fá ferskt loft inn krefst þess að hafa glugga opna, en það getur reynst íbúum til ama ef það er til dæmis vont veður eða mikill niður frá umferð.
Vélræn útsogskerfi
Vélræn útsogskerfi hefur verið ein algengasta gerð loftræsikerfa fyrir íbúðarhúsnæði á Íslandi undanfarna áratugi. Í útsogskerfum er stokkum komið fyrir úr eldhúsi og baðherbergjum og rakt mengað loft dregið þaðan út með baðherbergisviftum eða blásurum. Ferska loftið kemur inn á móti í gegnum opnanleg fög eða ferskloftsventla.
Það sem þarf að hafa í huga við virkni þessara kerfa er að þar sem ekki eru ferskloftsventlar má reikna með að það myndist undirþrýstingur þegar opnanleg fög eru lokuð. Stöðugur undirþrýstingur í íbúðum getur aukið hættu á vatnslekum. Auk þess kemur ekki ferskt loft inn þegar gluggar eru lokaðir og loft getur verið dregið frá öðrum íbúðum, þakrými eða rýmum þar sem loft er ekki ferskt.
Það skiptir máli hvernig ferskloftsventlum er komið fyrir þannig að það sé dregið inn ferskt loft. Það hefur tíðkast að koma þeim fyrir bakvið klæðningar en þá þarf að huga að því að binda ryk úr steinull í loftbili og velja klæðningarefni sem að ekki gefa frá sér lykt eða önnur gös sem geta haft neikvæð áhrif á gæði innilofts.
Útsogskerfum fylgir töluvert orkutap þar sem að upphituðu lofti er dælt út og kalt loft dregið inn.
Í fjölbýlishúsum þarf að huga að þrýstingsástandi á milli íbúða. Til dæmis ef lokað er fyrir ventla og glugga í einni íbúð í blokk með þakblásara sem gengur á föstum afköstum þá aukast loftskipti í öðrum íbúðum. Til að koma í veg fyrir þetta er hægt að nota þrýstistýrða þakblásara.
Loftskiptakerfi
Loftskiptakerfi eru byggð upp af tveimur stokkakerfum, í öðru kerfinu er blásið inn fersku lofti í íverurými og í hinu er sogað út rakt loft úr eldhúsi og votrýmum. Varmaendurvinnsla í loftskiptakerfum flytur varma úr útsogslofti yfir í ferskt loft sem blásið er inn. Í loftskiptakerfum er útiloft síað áður en því er blásið inn.
Með þessu móti sjá loftskiptakerfi til þess að:
nægu fersku lofti er veitt inn
fersku lofti er veitt inn án þess að kæla íverurými
að rakt notað loft er dregið út
dregið er úr orkutapi með varmaendurvinnslu
minni óhreinindi berast inn vegna síunnar
minni umhverfishávaði berst inn ef opnanleg fög eru lokuð
Auk þess er hægt að stilla kerfin þannig að vægur yfirþrýstingur sé í íbúðum.
Algengast er að sjálfstætt kerfi sé fyrir hverja íbúð.
Þessi kerfi eru einnig kölluð balanseruð loftræsikerfi eða FTX kerfi.
Comments